Guðsþjónustu-streymi um bænadaga og páska frá Skálholtskirkju og Þingvöllum

Víða er streymt frá guðsþjónustu í kirkjum landsins og eru nokkrar kirkjur með beint streymi á netinu í umdæmi Skálholts. Hjá okkur er kvöldstund á skírdag með guðsþjónustu sem endar með Getsemanestund og afskrýðingu altarisins.

Föstudaginn langa mun Halldór Hauksson lesa Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar og Jón Bjarnason leikur á orgel. Er lesturinn í þremur hlutum kl. 9, kl. 13 og kl. 16. Fólk getur fylgst með streyminu með þessum hléum. Eftir hvern hluta lestursins verður streymið vistað sem myndband á fésbókarsíðu Skálholts og verður aðgengilegt þar áfram.

Útiguðsþjónustu verður steymt frá Þingvöllum og hefst hún við sólarupprás um kl. 05.50. Veðurútlit er gott fyrir streymið og spáð nánast logni. Þar þjónar sr. Kristján Björnsson. Verður henni steymt frá þjóðargrafreitnum austan við Þingvallakirkjuna og verða mestu hljómgæðin á netinu enda er ekki ætlast til þess að fólk komi saman á staðnum. Mælt er með því að setjast út í náttúruna, horfa móti austri og njóta þessarar guðsþjónustu í snjallsímanum, en forðast öll ferðalög.

Hátíðarguðsþjónustu verður síðan streymt frá Skálholtskirkju á páskadag kl. 8 og verður hún einnig aðgengileg eftir það en þar þjónar sr. Egill Hallgrímsson. Jón Bjarnason leikur á orgelið og stjórnar Skálholtskórnum sem syngur þar með hæfilegu bili milli kórfélaga.

Rétt er að taka fram að Skálholtsdómkirkja er opin alla daga milli kl. 9 og 18 með sýningunni í kjallara kirkjunnar og Þorláksbúð. Skálholtsskóli er hins vegar lokaður um hátíðina utan þess að snyrtingar eru opnar í vesturenda skólans, nálægt bílastæðunum.

Guð gefi okkur öllum uppbyggilega og styrkjandi bænadaga og gleðilega páskahátíð þegar hún gengur í garð hjá okkur öllum, hvar sem við erum.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square

SKÁLHOLT - SAGA OG MENNING Í 1100 ÁR

Sími: +354 486-8870

Skálholtsskóli

Skálholti, 801Selfoss

skalholt@skalholt.is

© 2023 Skálholtskirkjustaður