top of page

Passíusálmar sr. Hallgríms lesnir föstudaginn langa í Skálholti með orgeltónlist í streymi allan dag


Föstudaginn langa mun Halldór Hauksson lesa Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar í Skálholtsdómkirkju og hefst lesturinn klukkan níu árdegis. Lesið verður í þremur hlutum og gert hlé meðan útvarpsmessan er á RUV kl. 11. Næsti hluti verður kl. 13 og þriðji hluti kl. 16.

Í fyrsta hluta verða lesnir sálmar 1 til 13 og verður hlé eftir 13. sálminn á sama stað og í Jóhannesarpassíunni eftir afneitun Péturs. Annar hlutinn verða sálmar 14 til 30 lesnir og hlé verður gert eftir að lesið hefur verið um Kristí krossburð og Símon frá Kýrene. Hver hluti hefst og endar með orgelleik nema í lok þriðja hluta þar sem lokaversið í síðasta passíusálmi sr. Hallgríms, "Dýrð vald, virðing, og vegsemd hæst!" á lokaorðið.

Sálmarnir eru fluttir í streymi á fésbókarsíðunni Skálholt. Með þeim hætti er hægt að fylgjast með beinni útsendingu jafnóðum en eftir lesturinn verður hver hluti aðgengilegur á myndbandi á þessari síðu og hægt að horfa á það og hlýða á flutninginn þegar tóm gefst til þess þennan mikilvæga helgidag eða t.d. daginn eftir á hinum helga laugardegi, einsog hann er kallaður.

Lesturinn fer fram í Skálholtskirkju framan við kórþrepin í hákór. Kvöldið áður verður altarið afskrýtt í sérstakri Getesmanestund sem einnig verður streymt kl. 20 á skírdagskvöld. Altarið er því ekki skrýtt heldur sveipað svörtu klæði og altarisljósin ekki tendruð. Í stað hefðbundins altariskross verður trékross sem settur er upp við upphafningu krossins í lok Getsemanestundarinnar.

Á tímum heimsfaraldurs tökum við samkomubannið alvarlega og freistum þess að færa ykkur heilgihaldið heim í tölvu eða sjónvarpið í stofunni. Af sjálfu sér leiðir að það verður ekki hægt að ganga til kirkju og hvetjum við fólk til að virða heimahelgina sem þjóðin hefur sett sér í þeim raunagóðu aðgerðum sem almannavarnir hafa ákveðið. Við virðum tilmælin í hvívetna. Fyrir utan þennan tíma sem streymið á sér stað verður kirkjan þó að venju opin ef fólk vill eiga stund til íhugunar í einrúmi hér.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page