Opnunartími og þjónusta í vetur

Skálholtsdómkirkja verður opin alla daga í vetur milli kl. 9 - 18 og er minjasýningin í kjallara kirkjunnar og göngin opin á sama tíma auk Þorláksbúðar og snyrtinga í vesturenda Skálholtsskóla. Veitingarstaðurinn í Skálholtsskóla er opin kl. 8 - 17 alla daga í vetur.
Hægt er að panta kvöldverð og fá upplýsingar um lengi opnun í síma 486 8870 en veitingarstaðurinn er einnig opinn lengur þegar fundur eða námskeið er í gangi. Einu undantekningarnar eru á kyrrðardögum en þá er Skálholtsskóli alveg lokaður.
Flesta virka daga er sungin morgunbæn í kirkjunni kl. 9 undir leiðsögn presta og organista og messað er hvern helgan dag, á sunnudögum kl. 11 og á hátíðum eftir venju.
Hægt er að bóka svokallaða Staðarskoðun / Sögugöngu fyrir stóra hópa og litla og er allar upplýsingar að fá í síma Skálholts, 486 8870.
Stjórn Skálholts vekur athygli á því að þegar fólk er ekki að koma til helgihalds, bæna eða athafna í kirkjunni er greitt þjónustugjald fyrir bílastæðin, sýningar og snyrtingar. Er það kr. 500,- fyrir einstakling en hópafsláttur er ríflegur þannig að fyrir fólksbíl og farþega er greitt samtals kr. 750,-, fyrir smáa hópferðarbíla (8-30 farþega) eru greiddar kr. 1.500,- og fyrir hópferðarbifreiðar fyrir 30 farþega og fleiri er gjaldið kr. 3.000,- Greiða má við innganginn í kirkjuna eða inni á veitingarstaðnum eða með því að skrá hópferðarbílinn með öllum upplýsingum í sérstaka möppu í forkirkjunni og er þá gjaldið innheimt hjá rútufyrirtækinu eða ferðaþjónustuaðilanum.
Skálholtsstaður og Skálholtsbiskup bjóða alla velkomna til Skálholts og þakka fyrir komuna og fyrir öll framlög til eflingar staðnum og þeirri þjónustu sem staðurinn vill veita. Stöðugt er verið að vinna að endurbótum á kirkju, húsum, göngustígum og umhverfi í Skálholti svo hægt verði að mæta fjölgun gesta á staðinn. Í vetur eru á dagskrá námskeið, kyrrðardagar, tónleikar og sýningar auk helgihaldsins og er upplýsingar að finna hér á heimasíðunni jafnóðum.