top of page

Siðbót í þágu jarðar


Haldin verður ráðstefna í Skálholti dagana 8.-10. október undir yfirskriftinni Siðbót í þágu jarðar. Hluti ráðstefnunnar verður öllum opin og án aðgangseyris en það er málstofa í Skálholtsdómkirkju miðvikudag 9. október kl. 14 til 15.30. Boðið verður uppá kaffi í Skálholtsskóla á eftir. Æskilegt er að fólk skrái sig á Viðburðasíðu hér á vefnum, nafn og netfang.

Ráðstefnan er haldin í Skálholti og byggir á samstarfi samtaka sem hafa trúarlegan eða samfélagslegan bakgrunn í ljósi þess sem segir í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og samfélagslega baráttu gegn ógnvænlegum loftslagsbreytingum.

Sú umbreyting á lífsháttum, sem viðnám gegn loftslagsvánni kallar á, þarfnast viðhorfsbreytinga um allan heim. Á vegum UNEP, umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna, hefur verið unnið að því að tengja saman samtök með trúarlegan bakgrunn til forystu fyrir siðbót í þágu jarðar. Á sama hátt hefur áhugafólk um landgræðslu og endurheimt jarðargæða átt með sér áhrifamikið alþjóðlegt samstarf. Sú hugmynd sem rædd verður í Skálholti er að tengja saman þessa áhrifaaðila í heimsnet sem léti til sín taka í loftslagsmálum.

Iyad Abumoghli, fulltrúi frá UNEP, tekur þátt í ráðstefnunni og opnum fundi í Skálholtskirkju miðvikudaginn 9. okt. kl. 14:00 ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra, Peter-Fischer Möller Hróarskeldubiskupi, Beatrice Dossah, aðgerðarsinna frá Ghana og Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands.

Nokkrir þeirra sem boðið hefur verið til ráðstefnunnar í Skálholti munu einnig verða meðal mælenda í tveimur málstofum á alþjóðlegu ráðstefnunni Hringborði norðursins (Arctic Circle Assembly) í Hörpu 10. – 13. október.

Þjóðkirkjan, Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar, Guðfræðistofnun HÍ og Trú og samfélag standa þar fyrir málstofu um „Siðbót í þágu sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna“.

Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna; Langræðslan; Landvernd og Trú og samfélag skipuleggja einnig málstofu þar sem ber heitið: „Brúargerð til velsældar með þekkingu og aðgerðum“.

Dagskrá málstofanna og opna fundarins í Skálholti má sjá á vef Hringborðs norðursins www.arcticcircle.org; www.kirkjan.is og www.skalholt.is

Mark MacDonald, biskup frumbyggja innan Anglikönsku kirkjunnar í Kanada, verður meðal aðalræðumanna á Hringborði Norðurslóða. Hann kemur til Íslands í boði þjóðkirkjunnar og Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrum forseta Íslands. Mark MacDonald er forseti Alkirkjuráðsins í Norður-Ameríku.

Mark MacDonald, Peter-Fischer Möller, Jim Antal, rithöfundur og kirkjuleiðtogi í Bandaríkjunum, Beatrice Dossah og Jógvan Friðriksson Færeyjabiskup prédika í kirkjum í Reykjavík sunnudaginn 13. október kl. 11:00. Peter-Fisher Möller Hróarskeldubiskup flytur auk þess fyrirlesturinn „Græna kirkjan í Danmörku“ í Hallgrímskirkju kl. 09:30 þann sunnudag.

Myndirnar eru af Beatrice Dossah, Mark MacDonald og Peter Fischer-Möller.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page