top of page

Prestsvígsla í Jerúsalem og hugmyndir um vinabiskupsdæmi


Á Mikjálsmessu, 29. sept., tók Skálholtsbiskup þátt í prestsvígslu í Jerúsalem og mun þetta vera í fyrsta sinn í sögu kristni sem kona er vígð til prests í Jerúsalem og til þjónustu í hinni helgu borg. Í athöfninni aðstoðaði sr. Kristján Björnsson biskup Lúthersku kirkjunnar í Jórdaníu og Landinu helga, Sani Ibrahim Azar, við vígsluna en nýi presturinn er dr. Maria Kristina Leppäkari.

Hún er forstöðumaður Sænsku Guðfræðistofnunarinnar í Jerúsalem og verður áfram í því starfi með þessari nýju prestsþjónustu meðal arabískumælandi sóknarbarna í Kirkju Lausnarans, Redeemer Church, í Jerúsalem. Lútherska kirkjan er ekki mjög fjölmenn en getur haft mikil áhrif með þjónustu sinni og rekstri skóla og leikskóla, dagdvöl aldraðra, eldhúsi á hjólum í Ramallah og flóttamannahjálp í Jórdaníu. Kirkjunar eru Christmas Church í Betlehem, Vonarkirkjan í Ramallah, kirkjan í Beit Sahour, Siðbótarkirkjunni í Beit Jala og kirkju Góða hirðisins í Amman, kirkja skírnarstaðar Jesú handan Jórdanár, auk Kirkju Lausnarans í Jerúsalem þar sem er reglulegt helgihald á arabísku, ensku og dönsku, þjónusta við heyrarskerta og einnig vel skipulagt æskulýðsstarf og þjálfun leiðtogaefna. Biskupinn situr í Jerúsalem og þar er líka miðstöð fyrir baráttu kvenna fyrir jafnrétti meðal trúfélagsdeilda sem verða að teljast nokkuð íhaldsamar gagnvart prestsvígslum kvenna. Það var ánægjulegt að vígsla dr. Maria Kristina fór fram sama dag og við gátum fagnað heima 45 ára vígsluafmæli fyrstu prestsvígðu konunnar á Íslandi, sr. Auðar Eir Vilhjálmsdóttur, og kom það fram í prédikun biskups Azar og í ávörpum í messunni og á eftir í vígslukaffinu. Vígsluvottar voru frá mörgum þjóðum og kirkjudeildum.

Haldnir voru samráðsfundir og farið yfir það hvernig þessar kirkjur hafa verið að tengjast og þá einkum Jerúsalem og umdæmi Skálholts og er til umræðu að bindast formlega sem vinabiskupsdæmi eða systrabiskupsdæmi með gagnvæmum heimsóknum, viðburðum, ráðstefnum og annarri kirkjulegri þjónustu. Skemmst er að minnast heimsóknar dr. Munib Younan, fv. biskups í þessari lúthersku kirkju á Skálholtshátíð og í fyrra kom dr. Maria Leppäkari til Íslands ásamt dr. Munther Isaac, prestinum í Betlehem og Rabbi Nir frá Jerúsalem til ráðstefnu Prestafélags Vestfjarða í Holti í Önundarfirði sem eru hér á mynd. Með Skálholtsbiskupi í för voru kona hans, Guðrún Helga Bjarnadóttir, og sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, formaður Prestafélags Vestfjarða og sr. Hulda Hrönn Helgadóttir, héraðsprestur og fulltrúi samstarfsnefndar trúfélaga en þær voru báðar vígsluvottar.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page