Helgilundur - sóknartré - á Degi náttúrunnar

Á Degi náttúrunnar koma fyrstu sóknir landsins í Skálholt, planta trjám til að kolefnisjafna starfsemi í sinni sókn, halda saman helgistund í Helgilundinum og snæða svo saman súpu í Skálholtsbúðum á eftir. Þessi merki atburður verður í dag, 16. september og hefst kl. 17 rétt fyrir ofan Skálholtsbúðir. Stikaður stígur er þar af veginum og framhjá flaggstönginni suður á holtið. Þar er rof í gróðrinum og vinnst ekki bara kolefnisjöfnun með plöntun trjánna heldur og með gróðursetningu í og við rofin svörðinn, en í rofinu er fólgin mikil losun.
Fyrstu sóknirnar sem taka þátt í þessum helgilundi og planta sínum sóknartrjám eru Hallgrímssókn og Breiðholtssókn í Reykjavík, Kársnessókn í Kópavogi, Skálholtssókn og starfsfólk af Biskupsstofu auk starfsfólks úr Skálholti.
Hreinn Óskarsson, skógræktarstjóri Suðurlands, mun skýra út verkefni okkar að planta trjám, skýra staðarvalið og kenna handbrögðin. Sr. Halldór Reynisson og sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, munu stýra helgistundinni og blessa með afrískri blessun.