Vígsla sr. Helgu Kolbeinsdóttur í Kópavog

Það var fjölmenni og heilög stund þegar sr. Helga Kolbeinsdóttir var vígð til prests í Digranes- og Hjallasóknir í Kópavogi sl. sunnudag, 25. ágúst. Sr. Helga hefur verið æskulýðsfulltrúi í Digraneskirkju og verður núna æskulýðsprestur. Hún er fyrst presta til að vera vígð til Digranesprestakalls en allir fyrri prestar hafa verið vígðir áður en þeir tóku að þjóna þar.

Aðdragandinn að vígslu hennar í Skálholti er að vígslubiskup var að vísitera í Digraneskirkju um hvítasunnuna og þar var kallað eftir aukinni þjónustu hennar og þá einnig fyrir Hjallakirkju. Kópavogur tilheyrir Reykjavíkurprófastsdæmi eystra sem er eitt af 6 prófastsdæmum í umdæmi Skálholtsbiskups. Þessari fyrstu vísitasíu sr. Kristjáns lýkur í nóvember með messu í Grafarvogskirkju.

Skálholt hefur fengið leyfi til að birta nokkrar myndir frá blaðamanninum Geir A. Guðsteinssyni sem hann tók í athöfninni og bæði fyrir og eftir messu. Skálholtskórinn söng og organisti var Jón Bjarnason. Þau eru alvön að vígja presta en þetta var fyrsta prestsvígsla sr. Kristjáns Björnssonar. Svo er það spurning hvort þetta hafi verið nærri því 100. íslenska konan sem hlýtur prestsvígslu frá því sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir vígðist fyrir 45 árum síðan. Í veislukaffinu til heiðurs sr. Helgu kom allavega fram að þær eru allar á lífi utan ein, sr. Ólöf Ólafsdóttir, sem dó fyrr á árinu.

Vígsluvottar voru prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, sr. Gísli Jónasson, og sóknarprestarnir sr. Gunnar Sigurjónsson, sr. Sunna Dóra Möller, sr. Jóna Hrönn Bolladóttir og sr. Arna Grétarsdóttir, sem einnig lýsti vígslu. Með þeim þjónaði einnig sr. Skírnir Garðarsson, sem er settur sóknarprestur í Skálholtsprestakalli til 15. september í veikindaleyfi sr. Egils Hallgrímssonar. Meðhjálpari var Elinborg Sigurðardóttir á Iðu.
