top of page

Bogi Ágústsson flytur hátíðarerindi á Skálholtshátíð


Eftir messuna á Skálholtshátíð verður hátíðardagskrá með tónlist, erindi og ávörpum. Aðal erindið flytur Bogi Ágústsson, fréttamaður og formaður Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar. Auk þess flytur sr. Elínborg Sturludóttir, dómkirkjuprestur, stutt erindi um pílagrímagöngur. Ráðherra flytur ávarp og einnig dr. Munib Younan, biskup og fv. forseti Lútherska heimssambandsins, og biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir. Þá verða einnig sagðar fréttir um helstu breytingar sem orðið hafa í Skálholti, nýrri stjórn og nýjum verkefnum. Á hátíðinni verður opnuð sýning í nýju Gestastofunni sem er í húsinu sem áður fyrr var rektorsbústaður og fyrsta lýðháskólabygging í tíð sr. Heimis Steinssonar og síðar biskupssetur sr. Jónasar Gíslasonar, sr. Sigurðar Sigurðarsonar og sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar. Sagt verður frá hugmyndum um að setja upp Prentsögusetur Íslands í fjósinu í Skálholti og áformum um að flytja bókasafnið úr turni kirkjunnar í Gestastofuna nýju.

Tónlistina annast Jón Bjarnason, organisti og kórstjóri. Skálholtskórinn flytur kórverk og Jóhann I. Stefánsson og Vilhjálmur I. Sigurðarson leika á trompet. Dagskráin er öllum opin og þarf ekki að skrá sig til þátttöku. Skálholtsstaður býður í kirkjukaffi eftir hátíðarmessuna sem byrjar kl. 14 og hátíðardagskráin hefst kl. 16.00. Heildardagskrá Skálholtshátíðar 20.-21. júlí verður sett hér í aðra frétt á heimasíðunni.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page