Pílagrímagöngur í tengslum við Skálholtshátíð, 16. júlí - 21. júlí


Pílagrímagöngur eru hluti af hinum kristna menningararfi. Þeir sem ferðast til heilagra staða eru kallaðir pílagrímar. Þetta orð er komið úr miðaldalatínu (pelegrinus) en á rætur í klassískri latínu (peregrinus, útlendingur). Slíkar göngur eru farnar af misjöfnum ástæðum; í þakkargjörð, í yfirbótarskyni eða af trúarlegum og/eða menningarlegum áhuga. Gengið er í áföngum en hlé eru notuð til bænahalds, ritningarlesturs eða til íhugunar og kyrrðar.

Lengi hefur verið hefð fyrir því að ganga pílagríma göngur frá Þingvöllum til Skálholts á Skálholtshátíð sem er haldin árlega í kring um Þorláksmessu að sumri 20. júlí. Í ár verður gengið frá fjórum stöðum til Skálholts. Göngurnar eru mis langar en hverjum er frjálst að skrá sig aðeins í eina dagleið hverju sinni. Gengið verður frá Bæjarkirkju í Borgarfirði þriðjudaginn 16. Júlí og Reynivallakirkju 18. júlí. Báðir hóparnir munu ganga til Þingvallakirkju og sameinast þar. Lagt verður af stað að morgni 20. júlí frá Þingvallakirkju í átt að Skálholti. Einnig verður gengið frá Bræðratungu í Biskupstungum til Skálholts og Ólafsvallakirkju á Skeiðum til Skálholts að morgni sunnadags þann 21. júlí. Frekari lýsingar á leiðunum má sjá neðar.

Boðið verður upp á svefnpokagistingu aðfaranótt sunnudags í Skálholtsbúðum fyrir alla gönguhópanna gegn vægu gjaldi. Þegar allir ferðalangar hafa skilað sér til Skálholts á laugardagskvöldið verða sungnar kvöldbænir og síðan verður pílagrímum boðið uppá sameiginlegan kvöldverð í Skálholtsskóla.


Á sunnudagsmorgun er í boði morgunverður niðri í búðum, sem hver og einn útbýr fyrir sig, hráefni verða til staðar s.s. brauð, álegga, súrmjólk, te og kaffi.

Boðið verður upp á akstur frá Apavatni laugardagskvöldi til Skálholts og frá Skálholti til Apavatns, Ólafsvallakirkju og Bræðratungukirkju á sunnudagsmorgni, ef þess er óskað.

Öllum göngum líkur í Skálholti kl.14.00 þar sem gengið er til hátíðarguðsþjónustu í Skálholtsdómkirkju.

Skráning í göngurnar fer fram inn á www.skalholt.is

Kostnaður:

Svefnpokagisting: kr. 3.700 Morgunverður: kr. 800 Akstur: fer eftir fjölda þátttakenda


Göngur:

Ganga 1:

Byrjað er í Bæjarkirkju í Borgarfirði þriðjudaginn 16. júlí kl. 13:00

1.d. þriðjud. Frá Bæjarkirkju er gengið að Lundarkirkju í Lundarreykjardal.

17 km.


2.d. Lundarkirkja kl. 10:00. Vaðið yfir Grímsá. Krosshólagata gengin yfir í Skorradal. Gengið að Fitjakirkju. Styttri en erfiðari áfangi en sá fyrsti.

12 km.


3.d. Fitjakirkja kl. 9:00. Þaðan liggur leiðin yfir Fitjaá og að Vatnshorni. Þaðan Síldarmannagötur upp Botnsheiði, frekar bratt í byrjun, en þegar vatnaskilum er náð tekur við léttari ganga niður í Botnsdal í Hvalfirði, að skilti pílagríma við afleggjara inn í Botnsdal.

18 km.


4.d. Skilti pílagríma við afleggjara inn í Botnsdal kl. 9:15. Gengið um Leggjarbrjót og Langastíg að Þingvallakirkju.

21 km.


5.d. Kl. 9:00 helgistund í Þingvallakirkju. Gengið upp að Hrafnagjá, síðan um biskupaleið um Lyngdalsheiði að N-Apavatni þar sem skilti pílagríma er við Laugarvatnsveg (37). Löng ganga, oft erfið.

27 km.


6.d. Sunnudagur kl. 8:30. Við skilti pílagríma við Laugarvatnsveg (37). Þaðan er gengið í Skálholt og beint í messu á Skálholtshátíð. Vaninn er að pílagrímar gangi fyrst hring umhverfis kirkjuna og síðan berfættir inn til messu. Kaffisamsæti er að messu lokinni

Göngustjórar eru sr. Elínborg Sturludóttir og Hulda Guðmunsdóttir guðfræðingur


Ganga 2:

Gengið frá Reynivallakirkju að Þingvallakirkju 18. og 19. júlí.

Leiðin er um 33 km. sem skipt verður niður á tvo daga.

1.d. Fyrri daginn verður gengið um Kjósarskarðsveg að Þórufossi og að þingvallarafleggjara á Mosfellsheiði.

2.d. Gengið verður frá fyrr nefndum afleggjara að Þingvallakirkju.


Þann 20. júlí verður gengið frá Þingvallakirkju þar sem hópurinn mun sameinast hópnum frá Bæ í Borgarfirði. Sjá göngu eitt.

Hægt að ganga valda kafla/daga.

Göngustjórar eru hjónin sr. Arna Grétarsdóttir og Rúnar Vilhjálmsson

Gsm 8652105

Ganga 3

Brottför frá Skálholti kl. 7:00 að Ólafsvallakirkju á Skeiðum. Gengið um 17 km leið frá Ólafsvallakirkju á Skeiðum sem leið liggur í átt á Fjalli á Skeiðum síðan er þræddur vestur hluti Vörðufells, yfir brúnna við Iðu og heim í Skálholti. Göngunni lýkur á Skálholtshátíð þar sem pílagrímar koma einnig úr Borgarfirði, Reynivöllum og Bræðratungu þennan dag. Gengið er til kirkjunnar kl. 13:30. Kirkjukaffi í lok messunnar.

Göngustjóri verður sr. Axel Á Njarðvík.


Ganga 4

Farið verður frá Skálholti að morgni sunnudagsins 21. júlí. Gengið er um 11 km leið frá Bræðratungukirkju í Biskupstungum til Skálholts. Göngunni lýkur á Skálholtshátíð þar sem pílagrímar koma einnig frá Borgarfirði, Reynivöllum og Ólafsvallakirkju þennan dag og gengið verður til hátíðar guðsþjónustu.

Göngustjóri verður Dagur Fannar Magnússon, guðfræðingur

Skráning mun fara fram á www.skalholt.is frá og með mánudeginum 1.júlí.

Þessi tilkynning verður uppfærð með nánari upplýsingum.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square