Kyrrðardagar í kyrruviku

Kyrrðardagarnir hefjast 17. apríl, sem er miðvikudagur fyrir skírdag og þeim lýkur eftir hádegi 20. apríl, laugardag fyrir páska. Grundvallarstef þessara kyrrðardaga er krossferli Jesú Krists sem stefnir til upprisuhátíðar páskanna. Þar verður í hugleiðingum og atferli dvalið við smurninguna í Betaníu, skriftaferil og skriftaspegil kynslóðanna, krossinn, dauðann og niðurstigninguna. Umsjónarfólk og leiðbeinendur eru sr. Kristján Valur Ingólfsson, biskup og fv. vígslubiskup í Skálholti, og sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, ráðgjafi. Í meira en þrjá áratugi hafa verið haldnir kyrrðardagar í Skálholti í dymbilviku. Þannig hefur orðið til hefð bæði í uppbyggingu og innihaldi kyrrðardaganna og byggja þeir núna algjörlega á hinni viðteknu hefð.

Sérstakt einkenni kyrrðardaga er þögnin. Frá miðvikudagskvöldi til laugardagsmorguns ríkir þögn. Það merkir að engin samtöl í orðum fara fram milli þátttakendanna allan þann tíma. Þögnin er einungis rofin ef þátttakendur vilja taka undir söng og bæn á föstum bænastundum, og ef þeir óska samtals í einkasamtölum. Kyrrðardagar í dimbilviku taka enn frekar en aðrir kyrrðardagar mið af þögninni. Það er vegna þess að þá er þess minnst hversu oft Jesús þegir sjálfur og svarar engu.

Inntak kyrðardaga er að gefa þáttakendum tóm til að eiga stefnumót við Guð. Ríkulegum tíma varið til bæna, íhugunar og samfélags í kyrrð. Einungis lágvær tónlist í matsal rýfur kyrrðina innan húss. Fullkomin kyrrð á að ríkja í húsinu frá klukkan tíu að kveldi til klukkan átta að morgni. Matmálstímar að morgni, um hádegi og um kvöld eru fastsettir, en tími fyrir kaffi og te eru frjálsir. Fastir tímar eru einnig fyrir íhuganir bænahald og einkasamtöl í húsinu, og fyrir bænahald og guðsþjónustur í kirkjunni. Þátttaka í öllum þeim stundum er frjáls. Reynt er að hafa góðan tíma milli dagskráratriða til útivistar eða annarrar iðju að eigin vali.

Í íhugunum og bænahaldi verður fjallað um ýmis tákn og einkenni kristinnar trúar eins og ösku, olíu, vatn, vín,brauð, kross, hring og mold.

Auk helgihaldsins sem eingöngu er ætlað þátttakendum á kyrrðardögum er kvöldmáltíðarguðsþjónusta á skírdagskvöld kl. 20.30 og guðsþjónusta á föstudaginn langa kl. 16.00 í Skálholtsdómkirkju þar sem allir eru velkomnir.

Gert er ráð fyrir að þátttakendur á kyrrðadögum fari til messu á páskamorgni þegar heim kemur, en að þessu sinni er þeim sérstaklega bent á að taka þátt í árdegismessu við sólarupprás í og við Þingvallakirkju. Messað hefur verið við sólarupprás á Þingvöllum ár hvert frá síðan árið 2000. Að þessu sinni er sólris á Þingvöllum kl. rúmlega hálf sex (05.32). Það tekur sólina um það bil 20 mín að lyfta sér upp yfir fjallgarðinn. Því má reikna með að messan hefjist laust fyrir klukkan sex með söng úti fyrir kirkjunni, meðan sólin dansar, að því tilskyldu að hvorki snjói né ský hylji sólu. Þá hefst messan í kirkjunni og páskasólin vermir huga og hjarta!

Skráning er í Skálholtsskóla (skalholt@skalholt.is, s. 486 8870) og hér á heimasíðunni.

Verð fyrir alla dagana er kr. 40.000 . Veittur er hjónaafsláttur og afsláttur til nemenda og eldri borgara. Ennfremur er hægt að sækja um styrk úr kyrrðardagasjóði.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square