Miðalda málsverður að hætti heilags Þorláks í Skálholti 16 júní

Miðalda málsverðurinn hefur verið sóttur í ýmsar heimildir, til dæmis handrit að kokkabók frá miðöldum hefur að einhverju leyti verið stuðst við, og svo heimildir úr fornleifum sem hafa fundist hér, til dæmis hvað hefur verið ræktað hér í Skálholti. Kvöldverðurinn er að hætti heilags Þorláks sem var biskup í Skálholti rétt fyrir 1200. Þetta er máltíð og veisla að sið höfðingja í Evrópu á þessum tíma því menningin hérna var í sjálfu sér ekkert frábrugðin því sem gerðist þar og að svo miklu sem menn gátu fundið rétta hráefnið. Það má kannski taka það fram að þetta er ekki súrt slátur eða hákarl eða eitthvað slíkt og er ekkert í líkingu við þorramat en það eru sumir sem halda það Það sem einkennir miðaldamat er að reynt var að hafa hann ferskan og er til dæmis ferskt lambakjöt, ferskur silungur og svartfugl á boðstólnum í Skálholti nú. Þá var geirfuglinn gjarnan á borðum áður en hann dó út en hann var hluti af mataræði manna á þessum tíma. Boðið er upp á lamb, ferskan silung og svartfugl. Annað sem einkennir þennan mat eru krydd sem almenningur á Íslandi og annars staðar í Evrópu hafði ekki aðgang að því kryddin voru svo dýr. Þetta eru til dæmis engifer, múskat, kardimomma og negull. Kryddin voru náttúrulega keypt dýru verði í Austurlöndum og svo dýrt að flytja þau til landsins. Maturinn var kryddaður vel til að yfirgnæfa þráa-og myglubragðið sem mátti eflaust finna líka því geymslurnar voru ekki eins og við þekkjum þær í dag, Með matnum er svo boðið upp á það sem er kallað Hippókratesardrykkur. Það er rauðvín sem er framreitt eftir ákveðinni uppskrift. Þar er þessum kryddum bætt við og ekki síst hunangi því menn höfðu ekki alltaf aðgang að mjög sætum og góðum rauðvínum. Því var svona sætu bætt við til að fá fram sætt bragð. Svo brugguðu menn líka öl hér í Skálholti. Byrjað verður með sögustund og staðarskoðun í kirkjunni klukkan 18 en kvöldverðurinn sjálfur hefst klukkan 19. Verð: 9.500 krónur Skráning: Færri komast að en vilja. Skráning fer fram fyrir fram á netfanginu skalholt@skalholt.is.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square