Þorláksleið tekur á sig mynd og opnast æ meir


Þorláksleið hefur verið lögð í landi Skálholts og er í raun opin fyrir gangandi, hlaupandi og hjólandi. Enn eru merkingar og vegvísar ókomnar en hægt er að átta sig á leiðum af korti sem fylgir hér með. Flestar leiðir eru stikaðar til bráðabirgða. Aðalleiðin liggur frá Þorlákssæti austan við minnisvarða Jóns Arasonar og yfir að Þorlákshver við Brúará. Þetta hefur verið mögulegt vegna myndarlegs styrks úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða að upphæð 19 milljónir króna og vegna tekna af veiði í Hvítá og Brúará.


Aðalleiðin liggur frá Skólavörðu og Þorlákssæti, framhjá minnisvarða Jóns Arasonar, suður með Biskupströðum og Fornastuðli, um kirkjugarðinn að Þorláksbúð, að Þorlákskirkju sem er annað heiti Skálholtsdómkirkju, hjá Staupsteini, minjum staðarhúsa 17. og 18. aldar, rústum prenthússins, um Biskupstraðir vestari, að Fjósakeldu, Þorláksbrunni, og Kyndluhóli, hjá Oddsstofu í Skálholtsbúðum og allt niður að Stekkatúni við Hvítá. Á þeirri leið er farið um fornan garð frá 1200. Úr Stekkatúni er um tvær leiðir að velja þvert vestur yfir Skálholtstungu að Bolhaus og þaðan að Þorlákshver við Brúará. Frá Þorlákshver er auðvelt að fara upp og um Skólaveg sem kenndur er við búnaðarháskóla sem eitt sinn átti að rísa á holtinu ofan við Flatabrúnir. Þessi leið er einnig akvegur og skemmtileg reiðleið. Hægt er að velja Skólaveg allt upp að Skálholtsveg og koma þá niður af honum við Skólavörðuna og þaðan að staðnum aftur. Önnur leiðin frá Þorlákssæti að Þorlákshver er um 4.9 km en hringurinn allur er liðlega 8 km.

Fyrir þau sem vilja ganga eða hlaupa lengri leið er hægt að bæta við vegslóða sem liggur frá Stekkatúni niður alla Skálholtstungu að Músanesi. Sá spotti er um 4,5 km aðra leið.


Norður af staðnum er hægt að ganga uppá Ásana sem eru ofan við Skálholtsveg og er þar að finna forna þjóðleið um Ásana og um Helgusystur og Smiðjuhóla að Hrosshaga og gömlu ferjunni sem var yfir Tungufljót að Bræðratungu.


Einnig má benda á tengingu frá Skálholti á gömlu þjóðleiðinni frá staðnum að Laugarási og þaðan niður að árbökkum Hvítár og að Hvítárbrú. Íbúar í Laugarási kalla hringinn um Laugarás Skálholtshringinn og telst hann vera um 5 km að lengd.


Það er því óhætt að segja að leiðirnar eru margar til útivistar. Hluti leiðarinnar er lagður með aðgengismál fatlaðra í huga og verður vonandi hægt að bæta aðgengi enn meir á næstu árum. Annars er undirlagið með ýmsu móti. Sumir hlutar leiðarinnar eru malbikaðir, aðrir malarbornir eða hellulagðir, enn eru þar slegnir troðningar og vegaslóðar. Hlutar leiðarinnar hafa verið sléttaðir með tætara í mestu þúfunum. Þær leiðir eru óðum að gróa upp og verða rennisléttir stígar innan fárra daga.

Einnig hafa verið farnir kaflar á þessari leið í Ragnheiðargöngum í sumar, til að minnast við sögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur. Leiðirnar liggja einnig um skógræktarsvæði og endurheimt votlendis, tvær hliðar á kolefnisjöfnun og baráttu geng loftslagsvánni.

Sumar þessar leiðir tengjast vegna þeirra vegaslóða sem bættir hafa verið í sumar. Það er ekki síst vegna veiðistaða við árnar í Skálholti en á síðasta ári hófst sala veiðileyfa í Brúará og Hvítá til styrktar rekstri Skálholtsstaðar. Gamlir traktors- og jeppaslóðar og fornar gönguleiðir hafa verið lagfærðar. Opnar það æ betur þær gönguleiðir sem núna eru að koma í ljós. Vegaslóðarnir opna fyrir þann möguleika að aka niður á Skálholtstungu og ganga þar um í ýmsar áttir. Allir vegfarendur og útivistarfólk er velkomið en Skálholt óskar eftir samstöðu um að aka ekki utan vegaslóða og ekki leggja nýjar leiðir. Allir eiga að geta notið þessa svæðis til endurnýjunar á sál og líkama og til íhugunar og hvíldar eða til náttúruskoðunar. Það leggur þær skyldur á hvern og einn að sýna tillitssemi og gæta sérstaklega vel að eigin umgengni. Skálholtstunga er á náttúruminjaskrá og fuglalíf er bæði viðkvæmt og fjölskrúðugt.


Fyrir og eftir gönguferðir er hægt að njóta góðrar þjónustu í Skálholtsskóla (Veitingastaðurinn Skálholt) og einnig má benda á ódýrar hleðslustöðvar fyrir bílinn á hlaðinu heima í Skálholti á meðan fólk er að ganga um og njóta náttúrunnar. Verið hjartanlega velkomin.


Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square