top of page

Samtal við dr. Rodney L. Petersen í Skálholti

Föstudaginn 6. júní mun Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar bjóða uppá samtal við dr. Rodney L. Petersen meðan á dvöl hans stendur í Skálholti. Samtalið verður í salnum á hóteli Skálholts, fyrirlestrarsalnum í Skálholtskóla kl. 10 – 11.30. Eru allir hvattir til að mæta og koma til samtalsins og þiggja kaffi og kleinur með. Rodney er sagnfræðingur, siðfræðingur og sérmenntaður í trúarlegum ágreiningsefnum og fv. forstöðumaður Guðfræðistofnunar Boston, Boston Theological Institute.

 

Ein nýjasta bréf hans er opið erindi til forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, eftir útspil forsetans gagnvart Harvard háskóla: „The Revocation of Certification: Harvard and the American Culture of Colleges“.

 

Dr. Rodney L. Petersen leggur til að í samtalinu muni hann fyrst fara stuttlega yfir nokkuð af því sem brennur hvað mest á mannkyni í samtíð okkar. Eða einsog hann orðar það: „I can give a brief lecture on the theme of interest, e.g., forgiveness, reconciliation, global warming, Ladate Si. Perhaps we will think on the Four Themes of the WCC Decade to Overcome Violence: Peace in the Community, Peace with the Earth, Peace in the Marketplace, and Peace Among Peoples.“

 

Margir þekkja Rodney L. Petersen þar sem hann var áður forstöðumaður Boston Theological Institution. Góður hópur heimsótti hann á ferð Kjalarnessprófastsdæmis 2005 undir forystu dr. Gunnars Kristjánssonar og kom hann þá í kring samtali við Raymond Helmick, þekktan Jesúíta og alþjóðlegan ráðgjafa í friðarmálum í Líbanon, Norður Írlandi og víða um heim. Komu þeir saman til landsins og héldu hér fyrirlestra á sínum tíma. Í þeirri ferð tók Bogi Ágústsson, fréttamaður og formaður Stofnunar Sigurbjörns við þá sjónvarpsviðtal sem eftir var tekið. Saman gáfu þeir Helmick út bókina Forgivness and Reconciliation með formála eftir Desmund Tuto, erkibiskup í Suður Afríku. Rodney hefur verið hvetjandi og til ráðgjafar við þátttöku Þjóðkirkjunnar og Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar, auk Guðfræðistofnunar HÍ og margra annarra aðila að málþingum á Hringborði Norðurslóða til fjölda ára og viðamikils ráðstefnuhalds í Skálholti árum saman í tengslum við Arctic Circle Assembly.

 

Rodney er hér á ferð til Íslands að fjölskyldu sinni. Honum er í mun að kynna Ísland fyrir sínum nánustu á meðan hann getur enn lagt á sig svo löng ferðalög en hann hefur glímt við Parkisonsveiki í allmörg ár. Ég hef notið þess að eiga mörg góð samtöl við Rodney um friðarmál og sáttagjörð og um loftslagsmál og alþjóðamál í ljósi guðfræði og samstarfs trúfélaga. Hugur hans er mikill og hvet ég því til þess að við mætum á þessum tíma í boði Stofnunar Sigurbjörns og í Skálholti þótt annasöm hvítasunnuhelgin fari senn að ganga í garð. Að sjálfsögðu verður boðið uppá súpu eftir samtalið. Guðfræðingar, prestar og djáknar eru sérstaklega boðin velkomin. Þeir Ögmundur Jónasson, fv. ráðherra, og sr. Gunnþór Ingason, fv. sóknarprestur, hafa unnið að undirbúningi heimsóknarinnar ásamt með vígslubiskupi sr. Kristjáni Björnssyni.

Comments


bottom of page