Biskup Íslands óskaði nýlega eftir sóknarpresti til þjónustu við Skálholtsprestakall í Suðurprófastsdæmi. Kristín Þórunn Tómasdóttir sóknarprestur við Egilstaðaprófastdæmi hefur verið ráðin að Skálholti.
Prestakallið tilheyrir Suðurprófastdæmi og er á samstarfssvæði með Hrunaprestakalli.
Það samanstendur af átta sóknum þar sem eru 12 kirkjur:
Bræðratungusókn - Bræðratungukirkja, Haukadalssókn - Haukadalskirkja, Skálholtssókn - Skálholtskirkja, Torfastaðasókn - Torfastaðakirkja, Miðdalssókn - Miðdalskirkja, Mosfellssókn - Mosfells-Stóru-Borgar og Búrfellskirkjur, Úlfljótsvatnssókn - Úlfljótsvatnskirkja, Þingvallasókn - Þingvallakirkja.
Auk þess eru í prestakallinu Úthlíðarkirkja sem er bændakirkja og Sólheimakirkja á Sólheimum og er reglulegt helgihald í báðum kirkjum.
Prestsbústaður er í Mosfelli.
Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir er fædd í Neskaupsstað árið 1970 þar sem foreldrar hennar, sr. Tómas Sveinsson og Unnur Anna Halldórsdóttir djákni þjónuðu en hún er elst af fimm börnum þeirra.
Kristín Þórunn lagði stund á guðfræði- og trúarbragðafræðinám á Íslandi, í Svíþjóð og í Bandaríkjunum. Hún hefur starfað sem prestur frá því 1998 við fjölbreyttar aðstæður í dreifbýli og þéttbýli, m.a. í Garðaprestakalli, Laugarnesprestakalli, í lúthersku og anglikönsku kirkjunni í Genf, og í Egilsstaðaprestakalli.
Kristín Þórunn hefur fjölbreytta reynslu innan kirkjunnar og hefur alla tíð verið virk í samkirkjulegu starfi. Hún hefur lagt sig eftir vinnu við helgihald og tilbeiðslu og komið að vinnu við þróun og mótun helgihalds og sálmavinnu.
Sr. Kristín Þórunn er gift sr. Árna Svani Daníelssyni, samskiptastjóra Lútherska heimssambandsins og þau eiga fjögur uppkomin börn og tvö sem eru ennþá heima við.
Við bjóðum Kristínu Þórunni hjartanlega velkomna í Skálholt og hlökkum til samstarfsins með henni.
Comments