top of page

Kantötumessa kl. tvö í stað hefðbundins messutíma


Sunnudaginn 29. júní er kantötumessa kl. 14 á Sumartónleikum í Skálholti í stað messunnar á hefðbundnum tíma fyrir hádegi. Þetta verður mikill hátíðardagur því með setningu Sumartónleikanna minnumst við þess að þessi merka tónlistarhátíð er fimmtíu ára í ár. Af því tilefni mun forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir og eiginmaður hennar, Björn Skúlason, vera við messuna og í kaffi á eftir á Hvönn. Tónleikar Sumartónleikanna hefjast kl. 16 og málverkasýning opnar kl. 17. Allt er þetta auglýst hér á síðunni í viðburðum.


Við biðjum alla að athuga það en sunnudaginn 6. júlí er messa á venjulegum tíma kl. 11. Þannig er þetta í Skálholtsdómirkju að yfirleitt er sunnudagsmessa kl. 11 árdegis. Á þessu eru samt nokkrar undantekningar og má nefna kantötumessurnar sem verða tvo sunnudaga núna, 29. júní og 13. júlí, og báðar kl. 14. Einnig er löng hefð fyrir því að hámessan á Skálholtshátíð er kl. 14 en það er í ár sunnudagurinn 20. júlí. Er það Þorláksmessa á sumar. Þó er rétt að minna á að orgeltónleikar Jóns Bjarnasonar eru kl. 11 þann forna hátíðardag í Skálholti og hátíðardagskrá kl. 16 eftir veglegt kirkjukaffi í boði staðarins.


Aðrar messur á öðrum tímum en ellefu eru á kirkjulegum hátíðum árið um kring. Messur eru kl. 14 eru á jóladag og páskadag en á páskadagsmorgni er einnig hátíðarmessa kl. 8. Þá er næstum óþarft en samt hér til áréttingar að aftansöngur á aðfangadag er kl. 18 og á gamlársdag kl. 17 en messa á jólanótt er kl. 23.30.


Að þessu sögðu er yfirleitt hægt að segja að messur eru á sunnudögum kl. 11 nema á hátíðum og einstökum hátíðardögum á staðnum.

 
 
 

Comments


bottom of page