top of page

Fundu mögulega ilmvatnsglas í prenthúsi í Skálholti.

Updated: Aug 28

Vikuna 19. – 23. ágúst fór fram vettvangskennsla í fornleifafræði í Skálholti á vegum Háskóla Íslands. Nemendur á fyrsta ári í námi í fornleifafræði við Háskóla Íslands tóku þar sín fyrstu skref í náminu með því að fá þjálfun í aðferðum sem beitt er við fornleifarannsóknir, bæði við uppgröft og fornleifaskráningu.


Hluti af blárri flösku sem fannst í prenthúsinu. Oft voru slíkar flöskur notaðar undir ilmvötn og hugsanlega hefur þessi gert það líka.


Uppgröfturinn gekk mjög vel en grafið var á svæði sem talið er hafa verið prenthús Skálholtsstaðar á 18. öld. Fjöldi gripa fundust við uppgröftinn, m.a. prentstafir, krítarpípur, eldsláttusteinar, brot úr ofni og blá flaska sem gæti hafa innihaldið ilmvatn.

Yfirumsjón með námskeiðinu og leyfishafi rannsóknarinnar er Dr. Angelos Parigoris fornleifafræðingur og kennari við Háskóla Íslands en auk hans sá Sólrún Inga Traustadóttir, fornleifafræðingur á Minjastofnun Íslands, um kennsluna.


Nemendurnir eru mjög ánægð með að hefja námið á þennan hátt, að fá að vera úti og spreyta sig á raunverulegum verkefnum í stað þess að setjast strax inn í skólastofuna í upphafi skólaárs. Þau dvelja í Skálholtsbúðum á meðan á þjálfuninni stendur og kynnast þannig mjög vel innbyrðis.


Á síðasta deginum fengu þau leiðsögn um Skálholtsstað hjá Kristjáni Björnssyni vígslubiskup sem leiddi þau í allan sannleikann um sögu staðarins og mikilvægi hennar.

Mikil ánægja er með samstarfið og væri óskandi að nemendur gætu dvalið enn lengur við uppgröft á staðnum, enda ekki vanþörf á.







195 views0 comments

Comments


bottom of page