Tveir prestar og tveir djáknar verða vígðir til þjónustu í dag í Skálholtsdómkirkju, 2. hvítasunnudag kl. 17. Skálholtsbiskup sr. Kristján Björnsson vígir Guðlaugu Helgu Guðlaugsdóttur til prestsþjónustu í Mosfellsprestakalli, Steinunni Önnu Baldvinsdóttur til prestsþjónustu í Seljaprestakalli í Reykjavík, Bergþóru Ragnarsdóttur til djáknaþjónustu í Skálholtsprestakalli og Ívar Valbergsson til djáknaþjónustu í Keflavíkurprestakalli. Skálholtskórinn syngur og þeir Jóhann Ingi Stefánsson og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson leika á trompet. Jón Bjarnason er organisti og stjórnandi. All margir prestar og djáknar koma að athöfninni og eru þeir vel á annan tug. Fjöldi fólks kemur úr öllum sóknum sem þau vígjast til og má búast við því að það verði þétt setið.
Það er sjaldan sem svo margir hafa verið vígðir í einni athöfn í Skálholti og þarf að fara aftur til 2. október 2011 til að finna vígslumessu þar sem einn prestur og tveir djáknar voru vígðir í sömu athöfn. Sannarlega stór hátíð. Við það bætist að á hvítasunnudag var hátíðarmessa og ferming og aftur er fermt í dag og skírt áður en kemur að þessari miklu vígslumessu Skálholts.
Comments