top of page

ODDUR EINARSSON

Oddur Einarsson var biskup í Skálholti 1589–1630.

 

Oddur var sonur Einars Sigurðssonar skálds í Eydölum. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla, hafði hug á stærð- og stjarnfræði og talinn nemandi Tyge Brahe. Þá var enn ekki viðurkennt að jörðin snerist um sólu.

 

Oddur varð rektor á Hólum og síðar Skálholtsbiskup. Hann var röggsamur en þótti hygla nokkuð ættfólki sínu. Skrifaði Íslandslýsingu á latínu: Oualisqunque descriptio Islandie. Var skáldmæltur og studdi mjög íslenskan sögufróðleik.

Hann var snortinn af endurreisnarhreyfingunni (húmanismanum) sem þá var uppi í Evrópu og fékk sér til handa uppskriftir fornra íslenskra rita og hvatti fróðleiksmenn til skrifta. Ávöxtur þess eru Biskupaannálar séra Jóns Egilssonar, gagnmerk heimild frá fyrstu hendi um sögu Íslands á 16. öld, samin í Skálholti um 1600.

 

Vildi laga kirkjuna að lúterskum sið
Oddur vildi laga kirkjuna að lúterskum sið því að honum uxu í augum ýmis gleðimót almennings, rómverskar trúarvenjur og tilbeiðsla blönduð töfrum og rúnum. Hélt prestastefnur til að leggja á ráðin um, með hvaða viðurlögum yrði girt fyrir þvílíkt athæfi. Oddur var höfðinu hærri en flestir menn, talinn hálærður og í mörgum tungumálum vel menntaður.

Bæjarhúsin í Skálholti brunnu til kaldra kola á síðasta aldursári Odds Einarssonar, meðan fólk var í kirkju. Brann þar fjöldi merkra handrita, fatnaður og allt innbú, en kirkjan stóð heil eftir.

bottom of page