KRISTJÁN VALUR INGÓLFSSON
Sr. Kristján Valur Ingólfsson, sem var kosinn vígslubiskup í ágúst 2011 og vígður í Skálholtsdómkirkju hinn 18. september 2011 af biskupi Íslands Herra Karli Sigurbjörnssyni. Hann tók við af séra Sigurði Sigurðarsyni (1944-2010) sem þjónað hafði frá árinu 1994 uns hann lést haustið 2010. Fyrstur vígslubiskupa til að hafa fasta búsetu í Skálholti eftir að lögum um vígslubiskupa var breytt árið 1989 var séra Jónas Gíslason (1926- 1998). Hann sat í Skálholti 1992 – 1994 er hann lét af störfum sakir heilsubrests.
Sr. Kristján Valur Ingólfsson er fæddur 28. október 1947 í Dal í Grenivíkursókn í Laufásprestakalli, sonur hjónanna Hólmfríðar Björnsdóttur frá Nolli og Ingólfs Benediktssonar frá Jarlsstöðum í Höfðahverfi.
Að loknu fullnaðarprófi á Grenivík, sótti Kristján Valur heimaskóla séra Sigurðar Guðmundssonar á Grenjaðarstað einn vetur, síðan Héraðsskólann að Laugum í Reykjadal í tvo vetur, og lauk landspróf þaðan vorið 1964. Þá tók við Menntaskólinn að Laugarvatni 1964 – 1968 með stúdentsprófi þaðan. Settist um haustið í Guðfræðideild Háskóla Íslands og lauk cand.theol prófi þaðan haustið 1974. Stundaði framhaldsnám í kennimannlegri guðfræði við Háskólann Heidelberg í Þýskalandi 1977 – 1984 og aftur 1996-1997.
Eiginkona Kristjáns Vals er Margrét Bóasdóttir, söngkona, kórstjóri og viðskiptafræðingur MBA, verkefnisstjóri kirkjutónlistar Þjóðkirkjunnar frá ágúst 2014. Þau eiga synina Bóas sem er fatahönnuður og Benedikt sem er tenórsöngvari.
Heimasíða www.kristjanvalur.is.
Pistlar, predikanir, spurningar og svör á www.tru.is
