JÓN VÍDALÍN
Jón Vídalín var biskup í Skálholti 1698–1720.
Hann var besta latínuskáld sinnar tíðar og afburða kennimaður, samdi predikanir og áhrifaríka húslestrapostillu sem prentuð var og lesið úr nær daglega á flestum heimilum landsins langt fram á 19. öld.
Jón lærði fyrst við Skálholtsskóla, reri á vertíðum, nam heimspeki og guðfræði í Kaupmannahöfn, gekk í sjóherinn en var keyptur út.
Jón var skörungur á stóli og stakur mælskusnillingur. Húslestrarbók hans, Vídalínspostilla, hefur öðlast varanlegan sess í íslenskri bókmenntasögu. Manna lærðastur og hágáfaður, örlyndur og umsvifamikill en þó forsjármaður í bústjórn.
Í harðindaárum lét hann stunda veiðiskap í ám og vötnum. Erfitt var þegar mörg staðarbú lögðust af sökum manneklu í bólunni 1707. Jón hóf mótekju og kályrkju, vildi umbætur, svo sem saltvinnslu og hreindýrarækt.
Hann lést á ferðalagi á Uxahryggjarleið þar sem síðan er kallað Biskupsbrekka. Sigríður Jónsdóttir, biskups á Hólum, var sögð hyggin og skynsöm og manni sínum góður ráðgjafi. Hún kunni vel að lesa og stíla auk rudimenta í latínu og kenndi Donatinn (latneska málfræði).
Jón Vídalín lét sér mjög annt um fræðslu barna.
