GISSUR ÍSLEIFSSON
Gissur Ísleifsson var biskup í Skálholti 1082–1118. Hann var ástsæll maður, lærður suður á Saxlandi.
Gissur biskup lét þau lög á leggja að biskupsstóll Íslands skyldi vera í Skálholti og gaf til hans Skálholtsland og margra kynja auðæfi í löndum og lausum aurum.
Með ráðum Gissurar biskups og annarra höfðingja var það lögtekið 1097 að menn skyldu greiða tíund af fé sínu sem skiptast skyldi í fjóra staði: til biskups, kirkna, kennimanna og fátækra.
Gissur hvíti reisti fyrstur kirkju í Skálholti. Hann var af ætt Mosfellinga og náfrændi Ólafs konungs Tryggvasonar. Þegar Ólafur konungur hafði tekio íslenska höfðingjasyni í gíslingu í reiði sinni yfir tregðu Íslendinga til að taka kristna trú sefaði Gissur reiði konungs með því að bjóðast til að reka erindi kristninnar við Íslendinga. Gissur var foringi kristinna manna á Alþingi árið 1000 og lykilmaður í þeim tímamótum sem þar urðu er kristni var lögtekin.