top of page

BRYNJÓLFUR SVEINSSON

Brynjólfur Sveinsson (1605–1675) var biskup í Skálholti árin 1639–1674.

Einn allra Skálholtsbiskupa vildi Brynjólfur hvorki láta grafa sig innan kirkju eða leggja stein yfir leiði sitt og kaus sér legstað í kirkjugarðinum hjá sínum nánustu. Brynjólfur kvæntist Margréti, dóttur Halldórs lögmanns, 1640 og var hún sögð gæflynd og góð kona. Þau misstu fimm ungbörn, síðan Ragnheiði 1663 og Halldór 1667. Margrét lést 1670 og Þórður sonur Ragnheiðar 1673.

 

Ötull biskup

Brynjólfur var vel að sér í grísku, magister í heimspeki, konrektor við Latínuskólann í Hróarskeldu 1632–1638 og tregur til að hverfa þaðan og taka við biskupsembætti. Reyndist þó mikill skörungur og einhver ötulasti biskup sem verið hafði á landinu, einkum hvað varðaði umsjá kirkna. Siðavandur við kennimenn en lét sér annt um hag presta, uppgjafapresta og prestsekkna.

 

Dugmikill

Brynjólfur hvatti til stofnunar holdsveikraspítala og söfnunar og útgáfu handrita. Hann var bænrækinn og reglubundinn í að hlýða tíðum, þótti hneygjast í átt að katólskum kenningum. Yfirlætislaus og hógvær en glaðlyndur með alvörugefni og hafði borðræður jafnan um eitthvert fróðlegt efni.

Þótti sýna þrautgæði og mikla hófsemi er skólapiltar urðu uppvísir um meðferð galdrastafa. Hafði málsmeðferð biskups þau áhrif að galdraofsóknir urðu sáralitlar á Suðurlandi, en á sautjándu öld voru yfir tuttugu karlar og ein kona brennd fyrir meintan galdur. Brynjólfur var með hærri mönnum, þrekinn og hraustmenni, röddin röggsamleg. Búhöldur góður og vandaði til ráðsmanna á stólnum, stjórnsamur án þess að sýna búrahátt. Hélt vel fólk sitt og veitti stórmannlega fyrirmönnum.

 

Dóttirin sór skírlífseið

Forn kista, líklega þýsk, var á miðöldum höfð til að geyma í skrúða biskupa og presta. Um tíma var kistan sem á eru kynjadýr og gotneskir bogar notuð fyrir altari í Brynjólfskirkju og við hana mun Ragnheiður biskupsdóttir hafa kropið er hún sór skírlífseið sinn, í viðurvist fjölda presta úr Árnesþingi vegna orðróms um samdrátt hennar og Daða Halldórssonar.

40 vikum eftir þennan atburð ól Ragnheiður Daða son en lést sjálf ári eftir það, lífsþrek hennar uppurið í glímunni við föður sinn og tíðarandann. Þessir atburðir urðu síðar skáldum yrkisefni. En við útför Ragnheiðar var fluttur í fyrsta skipti jarðarfararsálmurinn „Allt eins og blómstrið eina“ sem Hallgrímur Pétursson gaf Ragnheiði og er það eina eiginhandarrit eftir Hallgrím Pétursson sem er varðveitt enn í dag.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Byggði upp stórmannlega kirkju — Brynjólfskirkju

Við stað og kirkju tók biskup fornu og hrörlegu en uppbyggði stórmannlega og sterklega með ærnum kostnaði. Brynjólfur reif gömlu dómkirkjuna, reisti aðra minni og stjórnaði verkinu sjálfur.

Brynjólfur fékk hirðstjóra til að laga ákvæði um vogrek þannig að kirkjur skyldu eiga timbur sem bæri upp á fjörur.

Til smíðanna notaði hann rekavið svo sem til vannst, en einnig viðu mikla frá útlöndum svo að 1646 var Eyrarbakkaskip hið síðara nálega hlaðið timbri til kirkjunnar. Lét hann draga viðuna heim á ísum. Fékk hirðstjóra til að lagfæra ákvæði um vogrek þannig að kirkjur (ekki konungur) skyldu eiga allt vogrek er bæri upp á fjörur þeirra, ef það væri úr timbri.

Því var almennt trúað að árferði hefði batnað sunnanlands þegar Brynjólfur tók við biskupsdæmi, einkum aukist sjávarafli, en hafi þorrið þegar eftir andlát hans.

Brynjólfur var fyrstur Skálholtsbiskupa jarðaður utan kirkju þar sem fjölskylda hans hafði öll verið jarðsett áður.

Brynjólfur biskup.jpeg

1.000 krónu seðillinn með mynd af Brynjólfi Sveinssyni var fyrst settur í umferð árið 1984.

bottom of page