top of page

ÁRNI ÓLAFSSON

Árni mildi Ólafsson var biskup í Skálholti 1413–1425. Hann kom til stóls í Skálholti 1415, en hafði áður gegnt virðingarstöðum í Noregi og ferðast suður um álfu. 1420 fór hann utan og kom ekki til Íslands eftir það. Á biskupsárum sínum hafði hann um skeið öll völd á Íslandi, eins og fram kemur í upphafi þess bréfs sem er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands: „Vér Árni með guðs náð biskup í Skálholti, umboðsmann heilagrar Hólakirkju, visitator og hirðstjóri yfir allt Ísland.“

Bréfið er kvittun Árna biskups til Páls Runólfssonar fyrir reikningsskap af víseyri (konungssköttum) og landskuldum milli Jökulsár (á Brú) og Norðfjarðarnípu, gert í Skálholti laugardaginn eftir Þorláksmessu á sumar 1418. Bréfið er ritað með hendi Jóns Egilssonar, sem mun hafa verið norskur að uppruna, en var um þessar mundir í þjónustu Árna biskups. Innsigli Árna undir bréfinu er máð og skert, en mun hafa verið innsigli hans sem hirðstjóra.

bottom of page